Nýr verkefnisstjóri Knapamerkjanna

Þann 1. september lét (undirrituð) Helga Thoroddsen af störfum sem kennari við Háskólann á Hólum og sem verkefnisstjóri Knapamerkja. Við starfinu hefur tekið Hlín Jóhannesdóttir en hún útskirfaðist sem reiðkennari frá Háskólanum á Hólum vorið 2013. Síðustu ár hafa Knapamerkin vaxið og dafnað og aldrei fleiri útskrifast með góðum árangri af 5. stigi en vorið 2013. Vonandi verður framhald á. Um leið og Hlín boðin velkomin til starfa og óskað velfarnaðar langar mig að þakka, samstarfsfólki, nemendum og reiðkennurum ánægjulegt og skemmtilegt samstarf við Knapamerkin síðastliðin ár.

Með bestu kveðjum Helga Thoroddsen

Efsti nemandi á 5. stigi Knapamerkjanna árið 2014

Efsti nemandi á 5. stigi Knapamerkjanna árið 2014

Efsti nemandinn á 5. stigi Knapamerkjanna þetta árið er Klara Sveinbjörnsdóttir og nú á dögunum fékk hún loksins afhentan farandgrip Knapamerkjanna sem hún fær til varðveislu í 1 ár. Gripurinn er gefinn af Landsambandi Hestamannafélaga og Félagi Hrossabænda og afhentur árlega þeim nemanda sem skarar fram úr í bóklegum og verklegum prófum á 5. stigi. Þessi fallegi farandgripur er hannaður og gerður af Helga Björnssyni í Huppahlíð og sýnir á fallegan hátt gott samband manns og hests, en er eimintt það sem leitast er við að efla í gegn um Knapamerkin. Klara er svo sannarlega vel að viðurkenningunni komin og stóð sig stórvel í mjög harðri samkeppni í bæði bóklegu og verklegu prófi. 

Read More

Útskrifaðir af 5 stigi 2014

Útskrifaðir af 5 stigi 2014

Metuppskera er ú Knapamerki 5 þetta árið og hefur útskriftarhópurinn aldrei verið sterkari. Það er einkar ánægjulegt og bendir til þess að Knapamerkin séu stöðugt að styrkja sig í sessi og búa til öflugri knapa og betur þjálfaða hesta. Á síðasta ári voru gefin út ný aðgangsviðmið fyrir Háskólann á Hólum og þar er tekið fram að æskilegt sé að þeir nemendur sem sækja um nám við skólann hafi lokið 5 stigi Knapamerkjanna og að til þess sé litið við inntöku nemenda í skólann. Þetta er einkar ánægjulegt og gefur Knapamerkjunum aukin vind í seglin.

Read More

Frábær uppskera í Knapamerki 5

Frábær uppskera í Knapamerki 5

Fleiri nemendur en oft áður hafa stundað nám í Knapamerki 5 þetta árið. Á síðustu vikum hefur uppskeran verið dæmd og árangur nemenda, hesta og reiðkennara hefur aldrei verið betri frá því að Knapamerkin hófu göngu sína. Merkja má ótrúlegar framfarir í hestakosti, framkvæmd reiðkennslu og prófa og síðast en ekki síst metnaði knapa til að standa sig vel í þessu krefjandi prófi. Það má því segja að viðmiðið hafi verið hækkað þetta þetta árið. Hátt í 30 próf hafa verið dæmd og flestöll staðin með sóma.

Þess má geta að í nýjum aðgangsviðmiðum Háskólans á Hólum er tekið fram að próf í Knapamerki 5 sé eitt af þeim viðmiðum sem skólinn tekur með í reikninginn þegar umsóknir í skólann eru skoðaðar og prófið metið nemendum í hag.

Read More

Ákall til prófdómara og reiðkenna um skil á gögnum.

Ákall til prófdómara og reiðkenna um skil á gögnum.

Ágætu reiðkennarar og prófdómarar

Þessi póstur er skrifaður í þeirri viðleitni að hvetja reiðkennara og prófdómara sem kenna Knapamerki eða dæma Knapamerkjapróf að standa sig betur varðandi skil á einkunum og þáttökustaðfestingu til nemenda.
Töluverður misbrestur er á skilum á þeim gögnum sem Hólaskóli þarf að fá til að geta skráð nemendur í gagnabanka Knapamerkjanna.......Lesa meira með því að smella á "read more" hér fyrir neðan...
 

Read More

Þau standa sig vel í Hvolskóla

Það hefur verið frábært að fá að fylgjast með Knapamerkjanáminu við Hvolskóla í haust. Greinilega gaman hjá þessum krökkum og góður andi í hópnum. Nýverið luku krakkarnir prófum á stigum 1 og 2 og settu svo rúsínu í pylsuendann með sýningu að loknum prófum. Það verður gaman að fylgjast áfram með þessum duglegu krökkum sem eru greinilega undir góðri og virkri stjórn kennaranna sinna.

Með því að smella HÉR má lesa meira um Knapamerkjanámið í Hvolskóla.

Knapamerki kennd hjá Hvolskóla í annað sinn

Knapamerki kennd hjá Hvolskóla í annað sinn

Það er gaman að segja frá því að við Hvolskóla á Hvolsvelli eru Knapamerkin kennd í annað sinn. Skólinn bauð upp á Knapamerkjanám á síðasta skólaári og heldur nú áfram í vetur. Námið sækja 9 nemendur sem halda hesta sína í sameiginlegu hesthúsi, skipta á milli sín gjöfum og stíumokstri og hittast til að ríða út saman. Kennari þeirra er Alma Gulla Matthíasdóttir og er hópurinn með Facebook síðu til að halda utan um starfið og skiptast á upplýsingum. 

Read More

Tilkynning til reiðkennara og leiðbeinenda

Tilkynning til reiðkennara og leiðbeinenda

Eins og þið hafið væntanlega tekið eftir þá hefur gömlu heimasíðunni verið lokað og þessi nýja komin í staðinn. Fljótlega munið þið fá tölvupóst með lykilorði sem þið getið notað til að komast inn á lokaða síðu sem mun innihalda bókleg próf og upplýsingar sem eru einungis ætlaðar kennurum, dómurum og leiðbeinendum. Allir munu hafa sama lykilorð enda sama á síðunni fyrir alla.

Read More

Ný heimasíða Knapamerkjanna

Ný heimasíða Knapamerkjanna

Þá er loksins komin ný heimasíða fyrir Knapamerkin og meira að segja Facebook síða sem ætti að koma upp þegar slegið er inn orðið knapamerki í leitarvél FB. Síðunni er ætlað að þjónusta reiðkennara, nemendur og prófdómara Knapamerkjanna auk þess að kynna Knapamerkin fyrir þeim sem vilja afla sér upplýsinga um þau. 

 Á síðunni er að finna yfirlit yfir þá reiðkennara og leiðbeinendur sem hafa skráð sig í gagnagrunn Knapamerkjanna auk prófa, lista yfir prófdómara og annarra upplýsinga sem gott er að hafa aðgang að. 

Read More

Viðurkenningar Knapamerki 5

Arnar Bjarki Lárusson náði bestum árangri í Knapamerki 5 þetta árið.

Í vor stóðust allmargir nemendur vítt og breitt um landið próf á 5 stigi Knapamerkjanna.  Hæsta prófið í ár tók Arnar Heimir Lárusson á hryssunni Þokkadísi frá Efra Seli. Fast á hæla honum var Valdís Björk Guðmundsdóttir á hestinum Sigursveini frá Svignaskarði. Reiðkennari Arnars var Róbert Petersen og tók hann prófið hjá Hestamannafélaginu Sprett en reiðkennari Valdísar var Sindri Sigurðsson og tók hún prófið hjá Sörla í Hafnafirði.

Þessir ungu knapar stóðu sig frábærlega í verklegu reiðprófi og fá af því tilefni sérstaka viðurkenningu frá Háskólanum á Hólum fyrir frammistöðuna. 
 
5. stigs próf Knapamerkjanna samanstendur af margvíslegum fimiæfingum og fjölbreyttu gangtegundaverkefni gerir miklar kröfur til knapa og hests hvað varðar ástundun, vandaða reiðmennsku og gæði gangtegunda og er dæmt af 2 prófdómurum frá Háskólanum á Hólum. Nú er í fyrsta sinn afhentur sérstakur farandgripur sem gefinn er af Landsambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda og verður gripurinn næsta árið í varðveislu hjá Arnari Heimi Lárussyni.

 Þess má geta að þetta er í þriðja sinn sem Háskólinn á Hólum veitir þessa viðurkenningu þeim einstaklingum sem skara fram úr á Knapamerkjastigi 5 í þeim tilgangi að vekja athygli á þeim sem ná góðum árangri, sýna prúðmannlega reiðmennsku og ná valdi á þeim krefjandi verkefnum sem  Knapamerkin gera kröfur um. Í fyrra hlaut viðurkenninguna Anna Kristín Friðriksdóttir en árið 2011 deildu viðurkenningunni Brynja Kristinsdóttir og Ellen María Gunnarsdóttir.

Við óskum þessum efnilegu knöpum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.

Molar frá Neista vorið 2013

 Þessir knáu kallar luku allir prófi á 4. stigi Knapamerkjanna vorið 2013. Þeir eru talið frá vinstri, Kristján Þorbjörnsson, Magnús Ólafsson og Guðmundur Sigfússon.

Það er alltaf gaman þegar námskeiðshaldarar eru duglegir að senda myndir úr Knapamerkjastarfinu. Hér með er auglýst eftir að fleiri sendi myndir eða fréttir sem hægt er að setja hér inn  á síðuna. Einn hluti af því að njóta ávaxtanna af verkefnum vetrarins er að segja frá og fá klapp á bakið.

Að öðrum ólöstuðum þá hefur hestamannafélagið Neisti verið eitt virkasta félagið sem heldur úti Knapamerkjanámskeiðum, allavega miðað við félagafjölda. Hjá Neista er haldið úti mjög öflugu fræðslustarfi þar sem hlutunum er fylgt eftir frá A - Ö. Það er ekki síst að þakka óeigingjörnu stafi fræðslunefndar og góðum stuðningi félagsins við þá sem sækja námskeið.

Neisti heldur úti vel uppfærðri og aðgengilegri heimasíðu: neisti.net þar sem auðvelt er að fylgjast með starfi félagsins og fá upplýsingar um það sem er á döfinni. 

Hér koma nokkrar myndir sem hún Selma Svavarsdóttir aðalsprautan í fræðslustarfi Neista tók og sendi til okkar.